Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 471  —  216. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um kostnað vegna komu ferðamanna á Sjúkrahúsið á Akureyri.


     1.      Hvað hafa komur ósjúkratryggðra ferðamanna á Sjúkrahúsið á Akureyri verið margar árin 2023 og 2022?
    Komur ósjúkratryggðra ferðamanna á bráðamóttöku voru 654 árið 2022 og 757 fyrstu sjö mánuði ársins 2023. Engar skráðar komur ósjúkratryggðra eru á dag- og göngudeildir Sjúkrahússins á Akureyri á þessu tímabili.

     2.      Hver er fjöldi ósjúkratryggðra ferðamanna sem hafa leitað á bráðamóttöku á Sjúkrahúsinu á Akureyri árin 2023 og 2022?
    Komur ósjúkratryggðra ferðamanna á bráðamóttöku voru 654 árið 2022 og 757 fyrstu sjö mánuði ársins 2023.

     3.      Hver var kostnaðurinn af komum ósjúkratryggðra ferðamanna á Sjúkrahúsið á Akureyri á fyrrgreindu tímabili?
    Sjúkrahúsið hefur innheimt fyrir veitta þjónustu samkvæmt verðskrá sem byggist á DRG-flokkunarkerfinu og eru tekjur samtals um 212 millj. kr. árið 2022 og um 173 millj. kr. fyrstu sjö mánuði ársins 2023.

     4.      Hvaða áhrif telur ráðherra að þessar komur hafi á álag á Sjúkrahúsið á Akureyri?
    Samkvæmt svari Sjúkrahússins á Akureyri er það þannig, að þótt verið sé að veita ósjúkratryggðum sömu læknis- og heilbrigðisþjónustu og sjúkratryggðum fer gríðarlegur tími í umsýslu og vinnu við að greiða úr hinum ýmsum málum sem jafnvel tengjast ekki bara sjúklingnum heldur einnig aðstandendum þeirra, umboðsaðilum skemmtiferðaskipa sem og samskiptum við greiðsluaðila og tryggingafélög. Það fer mikill tími í upplýsingagjöf, umfangsmikla skjala-, þýðinga- og pappírsvinnslu, túlkun og stuðning. Til að mæta þessu hefur sérstakt teymi á skrifstofu sjúkrahússins tekið þessi verkefni að sér til að takmarka álag á sjálfar deildirnar. Óhjákvæmilega þarf mikið að leita til heilbrigðisstarfsmanna við úrlausn þessara verkefna þannig að þau eru til þess fallin að auka álag á klínísku sviðin. Jafnframt má geta þess að mest er álagið á sjúkrastarfsemi SAk á orlofstíma, þ.e. júní til og með ágúst ár hvert. Komum og farþegum skemmtiferðaskipa til Akureyrar hefur einnig fjölgað verulega síðastliðin ár. Heildarkostnaðaráhrif sem þessum verkefnum fylgja liggja ekki fyrir.

     5.      Hvernig hefur gengið að innheimta kostnað af komum ósjúkratryggðra á Sjúkrahúsið á Akureyri?
    Sjúkrahúsið býr yfir góðu skipulagi við innheimtu reikninga og hefur náð góðum árangri við innheimtuna. Það er lítið sem ekkert um ógreidda reikninga.
    Innheimtan byggist á alþjóðlega DRG-flokkunarkerfinu sem er greiðslu- og gæðakerfi. Tilkoma þess hefur einfaldað samskipti milli þeirra sem veita þjónustu og þeirra tryggingaraðila sem greiða.